Gengið og hjólað
í Reykjadal
Reykjadalur stendur á jarðhitasvæði við rætur Hengilsins og býður upp á fjölbreytta útivistarmöguleika hvort sem fólk vill ganga, hlaupa eða hjóla í einstakri náttúru. Kraumandi hverir og gufustrókar setja svip á svæðið og hin einstaka heita Reykjadalsá rennur niður Reykjadalinn þar sem vinsælt er að baða sig í heitri ánni áður en gengið er aftur niður.
Gönguleiðir í Reykjadal
Gönguleiðin inn í Reykjadal er orðin ein af vinsælustu gönguleiðum landsins og koma að jafnaði 1.000 manns á hverjum degi til að ganga þessa leið. Vinsælasta leiðin að baðaðstöðunni í Reykjadalsá er um 3,5 km löng og tekur vant göngufólk um 1 klst að ganga þangað upp. Ef gengið er aðeins lengra upp með ánni er að finna hið fallega Klambragil sem enginn ætti að missa af. Þeir sem ekki hafa fengið nóg eftir þessa göngu geta bætt við um 3,8 km hring sem liggur uppúr Klambragilinu uppá Ölkelduhnjúk og aftur niður í Reykjadalinn.
Hjólaslóðar í Reykjadal
Áhugi á fjallahjólamennsku hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og Reykjadalurinn og nágrenni hans er að verða einn að mest spennandi stöðum til að stunda þetta sport. Við þjónustumiðstöðina er m.a. að finna leigu á fjallahjólum og skipulagðar ferðir um svæðið. Lagðar hafa verið merktar brautir víða um svæðið og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.